Færsluflokkur: Aðalnámskrá
Byggingaleikir
31.3.2012 | 16:16
Til er alveg frábær sænsk bók um byggingarleiki í leikskólum (Bygg og konstruktion i förskolan). Bókin er eftir leikskólakennara, hana Miu Mylesand sem starfar á Trollet í Kalmar. Mia kom hingað fyrir nokkrum árum og hélt erindi um efnið á vegum Háskólans á Akureyri. Bókin fjallar að hluta um það þegar gamli leikskóli barnanna Trollet í Kalmar var rifinn og nýr byggður. Hvernig samstarfið börnin áttu við arkitekta og verktaka. En...
Byggingarleikir
... mest fjallar bókin um byggingaleiki og byggingasvæði í Trollet. Mikið er lagt upp úr fjölbreyttum efnivið. þar er ekki sama hreinstefnan í gangi og finna má í mörgum íslenskum leikskólum. Í bókinni er sagt frá því þegar þau ákváðu að færa bæði bíla og dúkkuhúsadót inn á byggingarsvæðið og í leiðinni útvíkka hugmyndir sínar um hvað er byggingarefni. Síðan er fjallað um hvaða áhrif það hafði á leik barnanna. Í bókinni veltir Mia töluvert fyrir sér kynjuðum leik barna, hvað og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann. Ég hef komið í Trollet bæði gamla og nýja, einn daginn sem ég var þar skruppu leikskólakennararnir frá, voru í efnisöflunarferð, fannst vanta meiri fjölbreytileika í efniviðinn sem börnin á yngstu deildunum hafa. Þar er nefnilega ekki hræðsla við að efnið geti verið of mikið.
Jafnréttismál
Rætur jafnréttisumræðunnar rekur Mia til 1993 þegar eitt foreldrið fór að velta fyrir sér og spyrja um hvort að starfsfólk ynni öðruvísi með stelpum en strákum. Foreldrið vildi fá að vita hvort að stelpur og strákar léku sérstaklega með einhvern efnivið og hvort þemum væri skipulögð þannig að meira tillit væri tekið til annars kynsins. Er t.d. frekar unnið með þemu sem höfða til stráka en stelpna? Verða kóngulær frekar fyrir valinu en vatnaliljur?
Þessar vagnaveltur leiddu til þess að þau ákváðu að skoða málið og komust að því að strákarnir voru ráðandi við ákveðnar aðstæður. Þau veltu fyrir sér hvernig hægt væri að mæta þessu og ákváðu að börnin skiptust eftir kyni við matarborðin og ákveðna daga væru börnin í kynjaskiptum hópum.
Hugmyndafræðin var að leyfa stelpunum og strákum að takast á við verkefni á eigin forsendum, en ekki forsendum hins kynsins. En þrátt fyrir að stelpunum var t.d. skapaður tími og vettvangur til að byggja, höfðu þær engan sérstakan áhuga. Með tímanum náðu þær þó einhverri færni en byggðu samt aðallega einar til að byrja með. Mia segir að þetta hafi leitt til þess að leikskólakennararnir "normalíseruðu" allar stelpur og ákváðu þeim tiltekna eiginleika út frá kyni, og sama hafi átt við um strákana. En þetta sá hún ekki fyrr en hún leit í baksýnisspegilinn, en segir jafnframt að það jákvæða við þessa tilraun hafi verið að hún/þau fóru að gera sér grein fyrir áhrifum þess hlutverks sem starfsfólkið valdi sér á barnahópinn.
Uppeldisfræðileg skráning opnaði augu
Mia segir að það hafi verið með uppeldisfræðilegri skráningu sem hún hafi uppgötvað eigin fordóma og staðalmyndir, og skráningin hafi hjálpað þeim að taka næstu skref. Sjálf hafi hún t.d. trúað því að strákar byggðu mannvirki s.s. vegi og hús á meðan stelpurnar vildu byggja í kring um dýrin og dúkkudótið (staði þar sem félagsleg samskipti - tengsl ættu sér stað). "Þegar ég sá að stelpurnar vildu gjarnan byggja með falllegum litríkum kubbum og hafa ríkt efnisval opnuðust augu mín". Uppeldisfræðilega skráningin breytti sýn hennar og hún segist skynja að öll börn byggja ólíkt eins og þau skynja veröldina í kring um sig á mismunandi hátt. Mia segir að það sem þau hafi sem sé uppgötvað að því ríkari sem efniviðurinn er því meiri möguleika bíður hann upp á, í leik og sköpun. Möguleika til að endurskapa veröldina og þá reynslu sem börnin búa yfir. Þannig hafi bæði leikurinn og meðferð barnanna á efniviðnum þróast.
Upp úr hjólförum kynhlutverka
14 árum eftir samræðu Miu við foreldrana og tilraunir í leikskólanum segist Mia ekki sjá mun á því hvernig kynin leika á byggingarsvæðinu. Ef börn frá unga aldri eru með leikskólakennara sem leggja áherslu á byggingarleiki, að bæði stúlkur og drengir byggi, þá verða bæði kynin byggingameistarar segir Mia. Að kynjaskipta börnunum var fyrir þau fyrsta skrefið upp úr hjólförunum, í gegn um uppeldisfræðilega skráningu fundu þau út að ákveðinn efniviður hugnaðist stelpum betur. Þau gerðu sér grein fyrir að ef byggingarsvæðið átti að verða fundarstaður beggja kynja og allra barna, yrði efnið þar að höfða til allra barna.
Hugmyndin er ekki að börn eigi að byggja vegna þess að það er hollt og gott, heldur vegna þess að byggingarsvæðið er svæði þar sem nám á sér stað, þar sem börn fá tækifæri og næði til að þróa færni og hugmyndir. Þess vegna krefst byggingarsvæðið líka mismunandi efniviðar. En á Trollet trúir fólk því líka að byggingarleikir og hlutverka- og þykjustuleikir eigi heima hlið við hlið, að á milli þeirra sé brú sem börnin eru sífellt að krossa. Vegna þessa sjónarmiðs á margt núna heima á byggingarsvæðinu sem áður átti heima á tilteknum stöðum eða hornum í leikskólanum .
Hvað styður byggingaleiki?
Fólkið á Trollet hefur verið upptekið af því að pæla í hvað styður við byggingaleikinn, hvernig efnivið þarf til að byggja rosa hátt, hvaða efnivið þarf til að skapa undirstöður og jafnvægi, hvaða efniviður lokkar stúlkur og drengi að byggingarsvæðinu. Þau hafa verið upptekin við að skoða hvernig börn smita hvert annað af byggingaráhuga, hvernig hægt sé að styðja við þá hugmynd á meðal barnanna að það sé jafn mikilvægt fyrir stráka og stelpur að byggja "fallegar" byggingar.
Bókin er annars hafsjór hugmynda og pælinga um byggingarleiki og hvet ég flesta leikskólakennara til að verða sér út um hana.
Aðalnámskrá | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hversvegna þessi eilífa áhersla á leikinn?
28.3.2012 | 16:33
Að prófa sig áfram og gera tilraunir í gegn um leik er á undanhaldi í mörgum bandarískum leikskólum. Ástæðan er þrýstingur í átt til læsis, að börn eigi að vera læs þegar þau fara úr leikskólanum. Þrýstingurinn leiðir til þess að fjöldi kennara eyða meiri og meiri tíma í að kenna börnum lestur og og sinna því sem gæti útlagst lestrartengt starf. Börn taka þessu misvel og sum upplifa aðallega þrýsting og mistök, þau öðlast með öðrum orðum ekki trú á eigin getu heldur þvert á móti, fyllast vanmetakennd. Bent er á að þetta komi sér einstaklega illa fyrir börn í áhættuhópum og það sé ekkert sem segi að börn sem verða læs 5 ára verði betri í lestri í framtíðinni en þau sem verða læs 6 eða 7 ára. Samtökin Alliances for childhood benda á nokkru atriði sem þau telja að leikskólafólk og aðrir verði að hugleiða.
· Endurskoða þá sýn að börn verði að verða læs í leikskóla Að sjálfsögðu telja þau mikilvægt að vinna með málið, hið talaða orð, að börn kynnist heima bóka og lesturs en lestrarkennsla eins og hefur verið að færast í vöxt henni verði sleppt. Börn þurfa möguleika til að leika skapandi, þau þurfa ríkulegt umhverfi sem hvetur þau til að rannsaka, sem ýtir við þeim og er þáttur í þroska þeirra og lestrarskilningi. (Verður hluti af tilvísunarramma þeirra).
· Til að geta útbúið leikumhverfi sem er ríkulegt og hvetur til þroska barna þarf góða kennaramenntun, kennarar verða búa yfir skilningi á þroska barna, þeir verða að kunna að fylgja barninu eftir og búa yfir mikilli hagnýtri þekkingu á leiknum, eðli hans og möguleikum. (Og svo vitnað sé til Öksnes hinnar norsku þá verðum við líka að geta leyft leiknum að vera til leiksins vegna ekki bara vegna þess að við sjáum í honum hin og þessi markmið). Það þarf að mati Bandaríkjamanna að styrkja leikinn í leikskólakennaramenntuninni.
· Stefna um hvernig leikskólar eigi að vera. Samtökin er á því að það sé ekki til ein sönn mynd af hvernig leikskóli henti öllum (hafna væntalega með því DAP). Námskrá leikskóla á að enduróma leik og meiri leik, en minna af verkefnum og skipulögðum stundum. (Listinn er að útbúa og leiða leikinn á þær brautir að í gegn um hann sé tekið á öllu sem fólk annars sér fyrir sér í þessum svonefndu markvissu skipulögðu stundum. Í raun er meiri krafa á fagmennsku leikskólakennara í leikmiðuðum leikskólum en nokkur staðar annarstaðar). SKIMANIR og próf á bara að gera þegar grunur er um að allt sé ekki eins og best verður á kosið. Gera á ráð fyrir að mikil tími gefist fyrir leik úti og inni, fyrir leik með kubba, þykjustuleik, hreyfileiki og svo framvegis.
Nú er hægt að velta fyrir sér á hvaða leið við erum hérlendis. Erum við á leið prófanna og því sem stundum er nefnt bein kennsla? Með markvissum stundum um hitt og þetta eða erum við á leið leiksins? Samkvæmt leikskólahluta Aðalnámskrár leikskóla er hin opinbera stefna leikmiðuð. En er önnur stefnumörkun hins opinbera í sömu átt?
Fyrir þá sem vilja lesa um rannsóknir sem styðja ofangreint þá er bent á slóðina. The Alliance for Childhood
og á heimasíðu: http://www.allianceforchildhood.org/homeAðalnámskrá | Breytt 30.3.2012 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þátttökuaðlögun
27.3.2012 | 00:12
Þátttökuaðlögunin byggist á þeirri hugmynd að börnin og foreldrarnir séu að læra að vera í leikskólanum, nái að kynnast honum saman, en ekki á að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Jafnframt að tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri barnahóp.
Framkvæmdin er á þá vegu að foreldrar eru með börnum sínum allan daginn í leikskólanum í þrjá daga og taka fullan þátt í starfseminni á meðan. Markmiðið er að skapa trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks sem sé grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi. Ef vel tekst til við upphaf leikskólagöngu og foreldrar og leikskólakennarar ná að kynnast er talið líklegt að þegar á reynir sé fólk saman í lið með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Hugmyndafræðilega byggist þáttökuaðlögun frekar á heimspekilegri og félagsfræðilegri nálgun við leikskólastarf en sálfræðilegri. Má að hluta segja að hún sé afkvæmi þeirra nýju hugmynda sem hafa verið að ryðja sér til rúms innan leikskólafræðanna.
Hún byggist á því á að undirstöðuatriði um hvernig aðlögun gengur fyrir sig stjórnist af viðhorfum og ákveðinni leikskólasýn. Sem dæmi byggist þátttökuaðlögun m.a. á þeirri trú að öruggir foreldrar smiti eigin forvitni og öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagsskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki.
Foreldrar upplifi ekki að þurfa að geta sér til um væntingar og verkefni sem þeir eigi að takast á við. Á það er bent að og jafnframt talinn kostur við nýja formið að foreldrar eru líklegri til að tengjast innbyrðis. Vegna þess að þeir eru gjarnan margir saman í aðlöguninni nái þeir að kynnast hver öðrum og flestum börnunum, sem getur leitt til þess að á milli þeirra skapist kunningsskapur.
Aðalnámskrá | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)