Umhverfi sem talar sem segir sögu

Mismunandi leikskólastefnur eða nálganir leggja áherslu á mismunandi umhverfi. Það er hægt að skoða áherslur og sýn til barna með því að skoða umhverfi og skipulag leikskóla.

Rýmið sem við lifum í mótar okkur. Yi-Fu Tuan lítur á manngert rými sem "texta sem felur í skilaboð um hegðunarreglur og jafnvel um viðhorfum til heimsins" og sem "afmarkar og stækkar samfélagið" Því er haldið fram að manngerð svæði móti, hjálpi til við að bera kennsl á og afmarki þá möguleika og virkni sem rýmið bíður upp á. Þetta felur í sér - að það felist skilaboð í því hvernig við höfum í kringum okkur, hvernig við hugsum rýmið. Línan á gólfiniu er þá ekki lengur bara lína á gólfinu, það liggur hugsun á bak við hana. Hún sendir skilboð um ákveðna hegðun. Hvar myndir hanga á veggjum, hversu hátt er upp í hankann í hólfi barnsins, allt byggir þetta á skilaboðum. 

Sænskir skólar sem vinna í anda Reggio Emilia

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég tvo leikskóla í Stokkhólmi, báðir vinna þeir í anda leikskólastarfs í Reggio Emilia. Þau skilaboða sem ég upplifði á þessum tveimur stöðum voru þó nokkuð ólík. Meðal þess er hvernig þessir skólar nýta rýmið. Hver sem er gat séð að skólarnir vinna samkvæmt svipuðum hugmyndum, um að börn verði að eiga sér sögu innan skólans, að þeim sé þar bæði sín eigin fortíð og nám ljóst. En að öðru leiti voru skólarnir gjörólíkir.

Lýðræði og traust

Í báðum skólum var lögð áhersla á vinna með möguleika, hópvinnu, lýðræði og ljóst að þar ríkti traust í garð barna. Sú hugmyndafræði sem eitt sinn heyrðist um á Íslandi að verkefni barna á veggjum leikksóla væru eins og hver annar subbuskapur sem þurfi að afsóða reglulega, átti sannarlega ekki við. Þar er ekki gefin út skilaboð um að myndir á vegg séu tímasóun starfsfólks eða ofáreiti fyrir hegðunartrufluð börn eins og til er í fjölda íslenskra leikskóla. Viðhorf sem er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég held að þvert á móti að með slíkum skilaboðum sé verið að senda allt önnur skilaboð til barna.

Ofvirk börn

Annar þessara leikskóla gekk of langt fyrir minn smekk í að setja upp skráningar, það var næstum hver þumlungur þakinn skráningum. Ég viðurkenni að ég fell fyrir fagurfræði Ítalanna sem leggja mikla vinnu og pælingar í hvernig þeir nýta rýmið til að endurspegla sögu og nám barna af sjónarhóli fagurfræðinnar. Ég spurði í þeim leikskóla, "hvernig er fyrir ofvirk börn með einbeitingarörðuleika að vera í þessu fulla rými". "Jú" sögðu þær, "það gengur mjög vel, því við flokkum allt sem við hengjum upp, þannig nær barnið skipulagi í það sem getur virst vera kaos fyrir þig. Við leiðum það að skráningum og ræðum þær, þetta verður meira að segja til þess að börnin leita þangað þegar þeim er órótt, þau ná að tengja sig við sína eigin sögu".

Hvað skilaboð?

Skilaboðin sem börnin í þessum skólum fá er að nám þeirra og verk skipta máli, að saga þeirra innan leikskólans skipti máli. Þó áhersla sé á þroska hvers einstaklings er ekki áhersla á að hver einstaklingur verði og eigi að taka öll verkefni með sér heim. Leikskólarnir leggja þvert á móti metnað í að tryggja spor barnanna, tryggja að saga þeirra í skólanum sé til staðar eftir ár og áratugi. Þetta er gert með því að nota uppeldisfræðilega skráningu.

Saga mín

Nýlega var ég í heimsókn í íslenskum leikskóla, á sama tíma var þar 15 ára unglingur í starfskynningu. Ástæða þess að hann valdi leikskólann var að hann hafði verið leikskólabarn þar. Það fyrsta sem hann gerði var að leita eftir einhverju kunnuglegu úr leikfangaeign skólans, hann leitaði að myndum, hann var að leita að fortíð sinni í þessum skóla. Þetta og fleiri svipuð dæmi urðu til þess að í þessum leikskóla er nú haldið í minningar barna. Þau hafa komið sér upp skáp og möppum til þess. Þau vilja senda þeim börnum sem einn dag koma í leit að sögu sinni skilaboð - um að hún skipti máli.

Hvaða skilaboð má lesa út úr annarskonar hugmyndafræði í leikskólum?

Leikskóli eins og t.d. Waldorf skólarnir (líka stundum nefndir Steiner skólar) leggja áherslu á náttúrulegt umhverfi, þar eiga ekki að vera nútímatæki og ekki bækur. Þar er áhersla á að nota leikföng sem unnin er úr náttúrulegum efnum, bómull, ull, silki, pappír og tré. Málað er með sérstökum litum og trélitir eru mikið notaðir. Vaxlitir eru úr bývaxi en það er líka notað sem leir. Lögð er áhersla á opin efnivið, mikla sköpun og nauðsyn leiksins. Starfsfólk vinnur að sínum verkefnum og börnin læra af. Hver dagur er helgaður eigin rytma og árið fylgir rytma árstíðanna. Matur er lífrænn og mikil áhersla lögð á hollustu. Sennilega er hægt að setja næstum hvaða Waldorf-leikskóla nokkuð beint inn í hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Sú sýn sem birtist á barnið og veröldina er rómantísk, þar sem ýmsum gildum hins hraða samfélags er hafnað. Því lífi sem flest börn í Waldorfskólum lifa utan skólasamfélagsins og á ég þá við leikföng, bækur, tölvur og sjónvarp er hafnað og það á ekki heima innan skólans.

Álitið er að barnið þarfnast umhyggju og þess að vera "vafið þétt í ull". Það er hinn fullorðni sem hefur vit og á að hafa vit til að velja rétt fyrir barnið í frumbernsku.

Í Waldorfskólum eiga engin horn að vera 90 gráður því þannig er náttúruna ekki. Húsnæðið á að endurspegla eins og kostur er sjálfa náttúruna. Ég finn vel að þessar rómatísku áherslur eiga að hluta til vel við mig. Þær kalla fram tilfinningar vellíða. En samt hef ég aldrei getað hugsað mér að verða algjörlega Waldorf. Sennilega er það tæknidellan sem ég er illa haldinn sem kemur í veg fyrir það.

Birtist áður á www.roggur.blog.is er eilítið breytt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband