Færsluflokkur: Menntun og skóli

Lestur er iðja og líka list

Þulur og ljóð hafa alla tíð fylgt mér í starfi.  Ég er ein þeirra sem er afar ólagviss, en að sama skapi kunni  ég helling að þulum og vísum (gæti vegna æfingarskorts hafa gleymt slatta). Ég hef líka átt gott með að koma ást minni á fyrirbærunum á framfæri við börn sem og að segja sögur bæði frá eigin brjósti og af bókum. Ég held að börn deili ást minni á því sem ég er að fara með vegna þess að þau njóta þess að hlusta á og taka þátt í með þeim sem nýtur að fara með. Ástæða þess að ég ræði þetta hér er að ég hef innbyggða óbeit á ákveðnum barnabókum, kannski jafnvel alveg órökstudda óbeit. En að sama skapi verð ég að viðurkenna að þær bækur eru til og þær skipta máli. Þar á meðal eru vinsælar fjöldaframleiddar bækur sem gefnar eru út í tengslum við barnaefni. Um t.d. Leiftur MacQueen og þess háttar kauða. Ég kemst ekki hjá því a viðurkenna þessa áhrifavalda í lifi barna. Þessvegna er ég í klemmu.

 Að lesa bók sem viðkomandi finnst skemmtilegt að lesa, skiptir það máli?

Fyrir nokkru kom ég að ungum starfsmanni í leikskóla velja bók til að lesa í samverustund. Ég spurði hvort hún vildi ekki lesa Einar Áskel. „nei það er svo leiðinlegt að lesa hann“ svaraði hún, hún sagðist vera að leita að ákveðinni Disney bók, sem hún „elskaði að lesa“. Ég ákvað að skipta mér ekki að og ræða málið ekki frekar á þessari stundu. Ég velti t.d. fyrir mér hvaða gildi það hefði fyrir börnin að hlusta á Einar Áskel ef viðkomandi vildi bara komast sem fyrst í gegn um hana. „afplána bókina“. Hvort jafnvel þó mér líkaði ekki prívat við tilteknar Disneybækur, þá skilaði ást viðkomandi á bókinni sér til barnanna. Þau nytu þess að hlusta. Í mörgum leikskólum starfar ungt fólk sem hefur lítinn sem engan bakgrunn til þess að t.d. velja sögur, hvað þá ræða á gagnrýnin hátt innihald bóka sem byggja á staðalmyndum Hollywood. Ein og ein saga af þessum toga er sennilega ekkert stórmál. Það er hinsvegar stórmál ef þær eru aðalréttur leikskólanna. Alveg eins og það er í lagi að fá sér sætindi inn á milli þá eru þau ekki góður grunnur að heilbrigði sem aðalmáltíðin dags daglega.

 

Að setja sér lestrarstefnu

Ég held að eitt af því sem leikskólar verða að gera er að ræða um hvað og hvernig lesið er með börnum. Verði að setja sé lestrarmarkmið. Í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð á síðasta ári, kom í ljós að í mörgum leikskólum var það hipsum haps hvað, hvenær og hvernig var lesið með börnum. Oft var það þannig að lesturinn var hluti af biðtímum leikskólans. T.d. áður en farið var að borða og þegar kallið kom, bókinni skellt saman og hún jafnvel ekki kláruð eða rædd. Í námi leikskólakennara er lögð töluverð áhersla á fjalla um  barnabækur (alla veg í þeim skóla sem ég þekki best til Háskólanum á Akureyri). Fjallað um nauðsyn þess að velja bækur, lesa, gera þær sýnilegar og svo framvegis.

Amma og afi og allir hinir skipta máli

Mikilvægi barnabóka er ekki bara í leikskólum, það skiptir miklu máli að lesa fyrir börn heima. Að foreldrar, systkini, afar og ömmur lesi með börnum. Alla vega texta og sögur og ræði innihald þeirra. Ræði hvað orðinn merki sem koma þar fyrir, hvort sem það er í ljóði eftir Jónas Hallgrímsson, Disneybók, Sögum um Bé tvo eða í þulum eins og þeim sem eru hér að neðan og á meðal þeirra sem ég elska að fara með.

 

Kom ég þar að kveldi

sem kerling sat að eldi.

Ég heilsaði henni.

Hún tók upp sinn pinginn

Og hugði mig stinga;

Þá tók ég lurkinn minn langa

Og lagði hann undir kerlingar vanga.

Hún vildi ekkert gott orð heyra

Með sínu bifsaða, bannsetta, kolsvarta, krókótta,

 kindótta, kringlótta kerlingareyra.

Kerling tók sitt öskutrog

Og setti út á haf;

Ég tók mér þá lítinn bát

Og sigldi hana í kaf

 (Gömul þula)

________________

Kom ég þar að kveldi
er kerling sat að eldi.
Hýsti hún fyrir mig hestinn minn
og hét að lána mér bátinn sinn,
því langt er til landanna,
liggur á milli strandanna.
Ægir karl með yggldar brár
og úfið skegg í vöngum,
og dætur hans með hrímhvítt hár
hoppa fram af töngum.
Kitla ég þær með einni ár,
þær ybba sig og gretta,
fetta og bretta,
froðunni á mig skvetta.

(Theodóra Thoroddsen)

Bækur og trúarlegur bakgrunnur barna

Fyrir nokkrum árum hélt ég erindi í Akureyrarkirkju um tengsl kirkju og skóla. Ég sagði þar m.a. að ég teldi mikilvægt að við viðurkenndum áhrifavalda í lífi barna. Leikskóli sem lokar umheiminn úti og starfar samkvæmt rómatískri mynd af börnum, sýslandi með trékubba og leir, er ekki endilega að gera það. Slíkir leikskólar vinna iðulega samkvæmt þeirri stefnu að viðurkenna í raun aðeins þá áhrifavalda í lífi barna sem þeir sjálfir velja. Þegar slíkt val á sér stað er næsta víst að óþægileg atriði eins og trúarbrögð sérstaklega minnihlutahópa og dægurmenning fjölþjóðafyrirtækja eru sett út í kuldann.

Margir vita að ég er lítt fylgjandi samstarfi kirkju og skóla þar sem fulltúrar kirkjunnar eru í samskiptum og samverustundum með börnum inn í leikskólanum. En ég er hins vegar fylgjandi því að börn eiga ekki að upplifa reynslu sína og fjölskyldu sinnar út á jarði samfélagsins. Þess vegna skiptir máli í leikskólumað börn kynnist því snemma að fjölskyldur og bakgrunnur þeirra er mismunandi. Það á líka við um trúarlíf og lífssýn foreldra. Nýlega rakst ég á grein um hvernig leikskólinn getur virt og kennt um mismunandi trúarbrögð í gegn um barnabókmenntir. Mér finnst að sú grein eiga erindi við íslenska leikskólakennara og jafnvel fleiri.

Þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla 1978 voru fáar barnabækur fyrir yngsta aldurshópinn til á íslensku. Þar sem ég starfaði var hins vegar til mikið úrval af dönskum barnabókum. Þær voru þýddar á mismunandi hátt, stundum var íslenska þýðingin skrifuð á milli lína. Stundum var sett blað yfir með þýðingunni sem maður gat lyft upp (svona ef viðkomandi treysti ekki þýðingunni) og stundum var límt alveg yfir danska textann. Þessir dagar er nú alveg liðnir, töluvert úrval barnabóka fyrir yngstu börnin kemur út á hverju ári. Hins vegar er hægt að velta fyrir sér um hvað bækurnar fjalla. Má t.d. velta fyrir hvort fjölbreytileiki mannlífsins, bæði frá kynþætti, trú og t.d. fötlun sé mjög augljós í bókunum? Fyrir nokkrum árum unnu nemar hjá mér verkefni og skoðuðu m.a. útgefnar bækur síðustu ára fyrir leikskólaaldurinn. Þeirra niðurstöður voru að bækur síðustu 3-4 ára þar á undan (verkefni 2008) hafi verið frekar frekar einsleitar, að fjölbreytileiki sé undantekning en ekki regla. Kannski að það bíði metnaðarfullra leikskólakennara að fara aftur að þýða bækur dagsdaglega, núna kannski úr ensku frekar en dönsku.

Ég hvet hinsvegar leikskólakennara sem hafa áhuga á lífi barna, áhuga á að virða bakgrunn og fjölbreytileika fjölskyldna að kynna sér grein þeirra Peyton og Jalongo frá því í febrúar 2008, sem ber heitið:Make Me an Instrument of Your Peace: Honoring Religious Diversity and Modeling Respect for Faiths Through Children’s Literature.

Í sama riti er líka að finna yfirlit yfir barnabækur sem ætti að nýtast þeim sem hafa áhuga á að kynna fyrir börnum trúarlegan fjölbreytileika mannlífsins.

Birtist fyrst á blogginu mínu í apríl 2008


Nám - fædd til að læra

Born to learn

Smellið á tengilinn og þá birtist verulega vel gert og áhugavert myndband.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband