Lestur er iðja og líka list

Þulur og ljóð hafa alla tíð fylgt mér í starfi.  Ég er ein þeirra sem er afar ólagviss, en að sama skapi kunni  ég helling að þulum og vísum (gæti vegna æfingarskorts hafa gleymt slatta). Ég hef líka átt gott með að koma ást minni á fyrirbærunum á framfæri við börn sem og að segja sögur bæði frá eigin brjósti og af bókum. Ég held að börn deili ást minni á því sem ég er að fara með vegna þess að þau njóta þess að hlusta á og taka þátt í með þeim sem nýtur að fara með. Ástæða þess að ég ræði þetta hér er að ég hef innbyggða óbeit á ákveðnum barnabókum, kannski jafnvel alveg órökstudda óbeit. En að sama skapi verð ég að viðurkenna að þær bækur eru til og þær skipta máli. Þar á meðal eru vinsælar fjöldaframleiddar bækur sem gefnar eru út í tengslum við barnaefni. Um t.d. Leiftur MacQueen og þess háttar kauða. Ég kemst ekki hjá því a viðurkenna þessa áhrifavalda í lifi barna. Þessvegna er ég í klemmu.

 Að lesa bók sem viðkomandi finnst skemmtilegt að lesa, skiptir það máli?

Fyrir nokkru kom ég að ungum starfsmanni í leikskóla velja bók til að lesa í samverustund. Ég spurði hvort hún vildi ekki lesa Einar Áskel. „nei það er svo leiðinlegt að lesa hann“ svaraði hún, hún sagðist vera að leita að ákveðinni Disney bók, sem hún „elskaði að lesa“. Ég ákvað að skipta mér ekki að og ræða málið ekki frekar á þessari stundu. Ég velti t.d. fyrir mér hvaða gildi það hefði fyrir börnin að hlusta á Einar Áskel ef viðkomandi vildi bara komast sem fyrst í gegn um hana. „afplána bókina“. Hvort jafnvel þó mér líkaði ekki prívat við tilteknar Disneybækur, þá skilaði ást viðkomandi á bókinni sér til barnanna. Þau nytu þess að hlusta. Í mörgum leikskólum starfar ungt fólk sem hefur lítinn sem engan bakgrunn til þess að t.d. velja sögur, hvað þá ræða á gagnrýnin hátt innihald bóka sem byggja á staðalmyndum Hollywood. Ein og ein saga af þessum toga er sennilega ekkert stórmál. Það er hinsvegar stórmál ef þær eru aðalréttur leikskólanna. Alveg eins og það er í lagi að fá sér sætindi inn á milli þá eru þau ekki góður grunnur að heilbrigði sem aðalmáltíðin dags daglega.

 

Að setja sér lestrarstefnu

Ég held að eitt af því sem leikskólar verða að gera er að ræða um hvað og hvernig lesið er með börnum. Verði að setja sé lestrarmarkmið. Í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð á síðasta ári, kom í ljós að í mörgum leikskólum var það hipsum haps hvað, hvenær og hvernig var lesið með börnum. Oft var það þannig að lesturinn var hluti af biðtímum leikskólans. T.d. áður en farið var að borða og þegar kallið kom, bókinni skellt saman og hún jafnvel ekki kláruð eða rædd. Í námi leikskólakennara er lögð töluverð áhersla á fjalla um  barnabækur (alla veg í þeim skóla sem ég þekki best til Háskólanum á Akureyri). Fjallað um nauðsyn þess að velja bækur, lesa, gera þær sýnilegar og svo framvegis.

Amma og afi og allir hinir skipta máli

Mikilvægi barnabóka er ekki bara í leikskólum, það skiptir miklu máli að lesa fyrir börn heima. Að foreldrar, systkini, afar og ömmur lesi með börnum. Alla vega texta og sögur og ræði innihald þeirra. Ræði hvað orðinn merki sem koma þar fyrir, hvort sem það er í ljóði eftir Jónas Hallgrímsson, Disneybók, Sögum um Bé tvo eða í þulum eins og þeim sem eru hér að neðan og á meðal þeirra sem ég elska að fara með.

 

Kom ég þar að kveldi

sem kerling sat að eldi.

Ég heilsaði henni.

Hún tók upp sinn pinginn

Og hugði mig stinga;

Þá tók ég lurkinn minn langa

Og lagði hann undir kerlingar vanga.

Hún vildi ekkert gott orð heyra

Með sínu bifsaða, bannsetta, kolsvarta, krókótta,

 kindótta, kringlótta kerlingareyra.

Kerling tók sitt öskutrog

Og setti út á haf;

Ég tók mér þá lítinn bát

Og sigldi hana í kaf

 (Gömul þula)

________________

Kom ég þar að kveldi
er kerling sat að eldi.
Hýsti hún fyrir mig hestinn minn
og hét að lána mér bátinn sinn,
því langt er til landanna,
liggur á milli strandanna.
Ægir karl með yggldar brár
og úfið skegg í vöngum,
og dætur hans með hrímhvítt hár
hoppa fram af töngum.
Kitla ég þær með einni ár,
þær ybba sig og gretta,
fetta og bretta,
froðunni á mig skvetta.

(Theodóra Thoroddsen)

Bækur og trúarlegur bakgrunnur barna

Fyrir nokkrum árum hélt ég erindi í Akureyrarkirkju um tengsl kirkju og skóla. Ég sagði þar m.a. að ég teldi mikilvægt að við viðurkenndum áhrifavalda í lífi barna. Leikskóli sem lokar umheiminn úti og starfar samkvæmt rómatískri mynd af börnum, sýslandi með trékubba og leir, er ekki endilega að gera það. Slíkir leikskólar vinna iðulega samkvæmt þeirri stefnu að viðurkenna í raun aðeins þá áhrifavalda í lífi barna sem þeir sjálfir velja. Þegar slíkt val á sér stað er næsta víst að óþægileg atriði eins og trúarbrögð sérstaklega minnihlutahópa og dægurmenning fjölþjóðafyrirtækja eru sett út í kuldann.

Margir vita að ég er lítt fylgjandi samstarfi kirkju og skóla þar sem fulltúrar kirkjunnar eru í samskiptum og samverustundum með börnum inn í leikskólanum. En ég er hins vegar fylgjandi því að börn eiga ekki að upplifa reynslu sína og fjölskyldu sinnar út á jarði samfélagsins. Þess vegna skiptir máli í leikskólumað börn kynnist því snemma að fjölskyldur og bakgrunnur þeirra er mismunandi. Það á líka við um trúarlíf og lífssýn foreldra. Nýlega rakst ég á grein um hvernig leikskólinn getur virt og kennt um mismunandi trúarbrögð í gegn um barnabókmenntir. Mér finnst að sú grein eiga erindi við íslenska leikskólakennara og jafnvel fleiri.

Þegar ég byrjaði að vinna í leikskóla 1978 voru fáar barnabækur fyrir yngsta aldurshópinn til á íslensku. Þar sem ég starfaði var hins vegar til mikið úrval af dönskum barnabókum. Þær voru þýddar á mismunandi hátt, stundum var íslenska þýðingin skrifuð á milli lína. Stundum var sett blað yfir með þýðingunni sem maður gat lyft upp (svona ef viðkomandi treysti ekki þýðingunni) og stundum var límt alveg yfir danska textann. Þessir dagar er nú alveg liðnir, töluvert úrval barnabóka fyrir yngstu börnin kemur út á hverju ári. Hins vegar er hægt að velta fyrir sér um hvað bækurnar fjalla. Má t.d. velta fyrir hvort fjölbreytileiki mannlífsins, bæði frá kynþætti, trú og t.d. fötlun sé mjög augljós í bókunum? Fyrir nokkrum árum unnu nemar hjá mér verkefni og skoðuðu m.a. útgefnar bækur síðustu ára fyrir leikskólaaldurinn. Þeirra niðurstöður voru að bækur síðustu 3-4 ára þar á undan (verkefni 2008) hafi verið frekar frekar einsleitar, að fjölbreytileiki sé undantekning en ekki regla. Kannski að það bíði metnaðarfullra leikskólakennara að fara aftur að þýða bækur dagsdaglega, núna kannski úr ensku frekar en dönsku.

Ég hvet hinsvegar leikskólakennara sem hafa áhuga á lífi barna, áhuga á að virða bakgrunn og fjölbreytileika fjölskyldna að kynna sér grein þeirra Peyton og Jalongo frá því í febrúar 2008, sem ber heitið:Make Me an Instrument of Your Peace: Honoring Religious Diversity and Modeling Respect for Faiths Through Children’s Literature.

Í sama riti er líka að finna yfirlit yfir barnabækur sem ætti að nýtast þeim sem hafa áhuga á að kynna fyrir börnum trúarlegan fjölbreytileika mannlífsins.

Birtist fyrst á blogginu mínu í apríl 2008


Byggingaleikir

Ráðhús vetrarhátíð 2008

Til er alveg frábær sænsk bók um byggingarleiki í leikskólum (Bygg og konstruktion i förskolan). Bókin er eftir leikskólakennara, hana Miu Mylesand sem starfar á Trollet í Kalmar. Mia kom hingað fyrir nokkrum árum og hélt erindi um efnið á vegum Háskólans á Akureyri. Bókin fjallar að hluta um það þegar gamli leikskóli barnanna Trollet í Kalmar var rifinn og nýr byggður. Hvernig samstarfið börnin áttu við arkitekta og verktaka. En...

Byggingarleikir

... mest fjallar bókin um byggingaleiki og byggingasvæði í Trollet. Mikið er lagt upp úr fjölbreyttum efnivið.  þar er ekki sama hreinstefnan í gangi og finna má í mörgum íslenskum leikskólum. Í bókinni er sagt frá því þegar þau ákváðu að færa bæði bíla og dúkkuhúsadót inn á byggingarsvæðið og í leiðinni útvíkka hugmyndir sínar um hvað er byggingarefni. Síðan er fjallað um hvaða áhrif það hafði á leik barnanna. Í bókinni veltir Mia töluvert fyrir sér kynjuðum leik barna, hvað og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann. Ég hef komið í Trollet bæði gamla og nýja, einn daginn sem ég var þar skruppu leikskólakennararnir frá, voru í efnisöflunarferð, fannst vanta meiri fjölbreytileika í efniviðinn sem börnin á yngstu deildunum hafa. Þar er nefnilega ekki hræðsla við að efnið geti verið of mikið.

Jafnréttismál

Rætur jafnréttisumræðunnar rekur Mia til 1993 þegar eitt foreldrið fór að velta fyrir sér og spyrja um hvort að starfsfólk ynni öðruvísi með stelpum en strákum. Foreldrið vildi fá að vita hvort að stelpur og strákar léku sérstaklega með einhvern efnivið og hvort þemum væri skipulögð þannig að meira tillit væri tekið til annars kynsins. Er t.d. frekar unnið með þemu sem höfða til stráka en stelpna? Verða kóngulær frekar fyrir valinu en vatnaliljur?

ráðhus 2008Þessar vagnaveltur leiddu til þess að þau ákváðu að skoða málið og komust að því að strákarnir voru ráðandi við ákveðnar aðstæður. Þau veltu fyrir sér hvernig hægt væri að mæta þessu og ákváðu að börnin skiptust eftir kyni við matarborðin og ákveðna daga væru börnin í kynjaskiptum hópum.

Hugmyndafræðin var að leyfa stelpunum og strákum að takast á við verkefni á eigin forsendum, en ekki forsendum hins kynsins. En þrátt fyrir að stelpunum var t.d. skapaður tími og vettvangur til að byggja, höfðu þær engan sérstakan áhuga. Með tímanum náðu þær þó einhverri færni en byggðu samt aðallega einar til að byrja með. Mia segir að þetta hafi leitt til þess að leikskólakennararnir "normalíseruðu" allar stelpur og ákváðu þeim tiltekna eiginleika út frá kyni, og sama hafi átt við um strákana. En þetta sá hún ekki fyrr en hún leit í baksýnisspegilinn, en segir jafnframt að það jákvæða við þessa tilraun hafi verið að hún/þau fóru að gera sér grein fyrir áhrifum þess hlutverks sem starfsfólkið valdi sér á barnahópinn.

Uppeldisfræðileg skráning opnaði augu

2008 ráðhús

Mia segir að það hafi verið með uppeldisfræðilegri skráningu sem hún hafi uppgötvað eigin fordóma og staðalmyndir, og skráningin hafi hjálpað þeim að taka næstu skref. Sjálf hafi hún t.d. trúað því að strákar byggðu mannvirki s.s. vegi og hús á meðan stelpurnar vildu byggja í kring um dýrin og dúkkudótið (staði þar sem félagsleg samskipti  - tengsl ættu sér stað). "Þegar ég sá að stelpurnar vildu gjarnan byggja með falllegum litríkum kubbum og hafa ríkt efnisval opnuðust augu mín". Uppeldisfræðilega skráningin breytti sýn hennar og hún segist skynja að öll börn byggja ólíkt eins og þau skynja veröldina í kring um sig á mismunandi hátt. Mia segir að það sem þau hafi sem sé uppgötvað að því ríkari sem efniviðurinn er því meiri möguleika bíður hann upp á, í leik og sköpun. Möguleika til að endurskapa veröldina og þá reynslu sem börnin búa yfir. Þannig hafi bæði leikurinn og meðferð barnanna á efniviðnum þróast.

 Upp úr hjólförum kynhlutverka

100 249914 árum eftir samræðu Miu við foreldrana og tilraunir í leikskólanum segist Mia ekki sjá mun á því hvernig kynin leika á byggingarsvæðinu. Ef börn frá unga aldri eru með leikskólakennara sem leggja áherslu á byggingarleiki, að bæði stúlkur og drengir byggi, þá verða bæði kynin byggingameistarar segir Mia. Að kynjaskipta börnunum var fyrir þau fyrsta skrefið upp úr hjólförunum, í gegn um uppeldisfræðilega skráningu fundu þau út að ákveðinn efniviður hugnaðist stelpum betur. Þau gerðu sér grein fyrir að ef byggingarsvæðið átti að verða fundarstaður beggja kynja og allra barna, yrði efnið þar að höfða til allra barna.

100 2500Hugmyndin er ekki að börn eigi að byggja vegna þess að það er hollt og gott, heldur vegna þess að byggingarsvæðið er svæði þar sem nám á sér stað, þar sem börn fá tækifæri og næði til að þróa færni og hugmyndir. Þess vegna krefst byggingarsvæðið líka mismunandi efniviðar. En á Trollet trúir fólk því líka að byggingarleikir og hlutverka- og þykjustuleikir eigi heima hlið við hlið, að á milli þeirra sé brú sem börnin eru sífellt að krossa. Vegna þessa sjónarmiðs á margt núna heima á byggingarsvæðinu sem áður átti heima á tilteknum stöðum eða hornum í leikskólanum .

Hvað styður byggingaleiki?

Fólkið á Trollet hefur verið upptekið af því að pæla í hvað styður við byggingaleikinn, hvernig efnivið þarf til að byggja rosa hátt, hvaða efnivið þarf til að skapa undirstöður og jafnvægi, hvaða efniviður lokkar stúlkur og drengi að byggingarsvæðinu. Þau hafa verið upptekin við að skoða hvernig börn smita hvert annað af byggingaráhuga, hvernig hægt sé að styðja við þá hugmynd á meðal barnanna að það sé jafn mikilvægt fyrir stráka og stelpur að byggja "fallegar" byggingar.

Bókin er annars hafsjór hugmynda og pælinga um byggingarleiki og hvet ég flesta leikskólakennara til að verða sér út um hana.

100 6319

Könnunarleikur yngstu barnanna

sturla könnunarleik
 

Í mörgum leikskólum þar sem yngstu samborgararnir (1-2ja ára) dvelja er könnunarleikurinn vinsæl aðferð yngstu barnanna til að rannsaka umhverfi sitt. Könnunarleikurinn er ákveðin aðferð við leik sem byggist á rannsóknarþörf barna. Undirstaða rannsókna þeirra er auðvitað fyrst og fremst þeirra eigin forvitni og skynjun, en umhverfið er líka skipulagt á tiltekinn hátt. Þannig að það styðji við og ýti undir könnunarþörf barnanna. Börn nota flest skynfæri sín í könnunarleik, þau skoða, snerta, hlusta, sleikja. Þau pæla í jafnvægi, rými, afstöðu og fleira og fleira.  Einn kostur könnunarleiks er að hann er hægt að ástunda heima og heiman.

Undirbúningur könnunarleiks

Til að undirbúa leikinn er safnar starfsfólk saman ýmiskonar skapandi endurnýtanlegum efnivið, s.s. rörum, hólkum, keðjum af ýmsum lengdum og grófleika, krukkulokum, niðursuðudósum, steinum, skeljum og ýmsu fleiru sem vekur áhuga barna. Þegar leikið er með efniviðinn er honum komið fyrir á tilteknum stöðum í hrúgur (1- 3 tegundir af enfivið saman) og hvert barn velur sér í fyrstu eina hrúgu/tegund til að kanna.  

Hlutverk starfsfólks

Hlutverk starfsfólksins er aðallega að nýta tímann til að gera skráningar á nálgun og rannsóknum barnanna. Læra af börnunum. Í könnunarleik gefst oft dýrmætt tækifæri til að setja sig í stellingar rannsakandans en ekki þess sem leiðir. Næmir og athugulir leikskólakennurum fá í gegn um skráningar innsýn í hugarheim barna og einstakt tækifæri til að kynnast þeim. Því hvert og eitt barn nálgast og leikur með efniviðinn á sinn hátt. Hér að neðan fylgja með myndir sem ég tók í heimsókn í leikskóla í London af könnunarleiksefnivið.  

könnnunarleikur2  könnunarleikur 1

Tiltekt

Mikilvægur þáttur aðferðarinnar er tiltektin að leik loknum. Í gegn um tiltekt læra börn að para saman og flokka. En hvorutveggja er undirstaða stærðfræðináms barna. Reyndar má segja að könnunarleikurinn sem slíkur sé afar mikilvæg undirstaða margra námsþátta.  

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði könnunarleiksins er m.a. rakin til leiks barna að ýmsu sem til er á heimilum og við munum mörg, eins og töluboxum, pottum og pottlokum. Hann byggir á gamalli hefð og þekkingu sem hefur verið sett í nútímabúning. En samtímis þróaður sem leið fyrir leikskólakennarann að kynnast því hvernig barnið rannsakar umhverfi sitt og hvernig það nálgast önnur börn í gegn um könnunarleikinn. Víðast er könnunarleikurinn lagður þannig inn að starfsfólkið segir ekkert á meðan á leik stendur. Sjálfri finnst mér það það ekki spennandi. Ekki alltaf. Kannski var upprunalega hugmyndin að hjálpa starfsfólki út úr því hlutverki að taka alltaf fram fyrir hendur barnanna (og það er raunverulegt vandamál víða í leikskólum), ég veit það ekki. Hins vegar held ég að hægt sé að þróa könnunarleik eins og aðra leiki og aðferðir. Mesta hætta hverrar aðferðar er að telja hana vera hina endalegu lausn. Í því eru endalokin falin.  

Fyrir um áratug þegar ég kenndi áfanga um yngstu börnin við Háskólann á Akureyri byggðum við hann meðal annars á bók eftir höfunda aðferðarinnar. (Þær skrifa líka um lykilpersónur, aðferð sem víða er notuð í starfi með yngstu börnunum). Höfundar eru þær Elinor Goldschmied & Sonia Jackson, og bókin heitir, People under Three, Young Children in Day Care (2nd editon), Routledge, London & New York, 2004. Ég skrifaði líka grein í fréttabréf leikskólakennara 1999 (minnir mig) um leikskóla sem ég heimsótti á Spáni sem beitti aðferðinni og sem notaði fjársjóðskörfur til að mynda tengsl á milli barna og starfsfólks. Einhverjir leikskólar hafa líka fengið stryki úr þróunarsjóðum til að vinna með könnunarleikinn. Hildur Skarphéðinsdóttir, þá leikskólaráðgjafi vann ötullega að innleiðingu hans.

Sturlubarnið og könnunarleikur

Ástæða þess að ég bloggaði upphaflega um könnunarleikinn er að ég hafði sjálf verið að nota aðferðina heima með Sturlu, barnabarninu mínu sem þá var á fyrsta ári. Hólkar í ýmsum stærðum sem hann lék með, (og pappaspjöldin sem hann hefur með) er dæmigerður efniviður í könnunarleik. Annar dæmigerður efniviður sem hann var mjög upptekinn við og gat dundað sér löngum stundum voru öll krukkulokin sem ég geymdi, stór og smá. Hann fleygði þeim, setti inn í hvert annað, tók þau til og raðaði, sleikti og nagaði. Þegar hann kom í heimsókn leitaði hann af þeim og varð afar glaður þegar hann fann þau. Hann gat dundað lengi með lokin og unað glaður við sitt. Við lok leiksins lögðum við ríka áherslu á að hann hjálpði okkur að taka til. Setja lokin ofan í plastboxið sem ég geymdi þau í. Tiltektin varð þannig hluti af leiknum, eitthvað til að hlakka til. Það er hægt að leggja inn hugtök, kringlótt, stór, lítill, hrufótt, slétt, lit lokanna og svo má lengi telja. (Myndin efst á síðunni er af Sturlu í leik með hólka)

Erlendar slóðir um könnunarleikinn og fjársjóðskörfuna

Comunity plaything

Early years

Íslenskar leikskólaslóðir um könnunarleikinn

Skagafjörður

Seltjarnarnes

Tjarnarsel


Tengsl leikskólastarfs og lista

PA210445Ítalski listamaðurinn Bruno Munari (1907 -1998) taldist til annarar kynslóðar framtíðarlistamanna á meðal samtíðarmanna, aðrir sáu í honum sterk tengsl við hugmyndafræði súrrealista. Hann var gjarnan kallaður Enfante terrible sinnar kynslóðar. Sá óþægi sem ekki fellur að rammanum, sá sem með list sinni að skilgreinir sig að hluta utan rammans. Hjá honum voru mörk listgreina að ýmsu leyti ósýnilegri en hjá flestum samtímamönnum. Fjöldi tilrauna hans í listum fanga athygli nútímafólks og sum samsömum við eigin reynslu og sýn á veruleikann. Munari beitti nýrri Hendur og ljósþekkingu og tækni óspart í verkum sínum. Rannsóknareðli listarinnar var honum hugleikið. Hann leitaðist við að skapa listaverk sem voru í gagnvirku sambandi við umhverfið, verkið hefðu áhrif á umhverfið en umhverfið samtímis áhrif á verkið. Óróar heilluðu Munari eins og Calder en hann hafnaði alfarið að hans óróar væru í ætt við óróa Calders. Undirliggjandi lögmál og efnistök væru gjörólík.

skuggar.JPG

Rannsóknir Munari snéru m.a. að möguleikum ljósins og að ljósfræði. Samspil ljós, lita og hreyfingar er algengt viðfangsefni í verkum hans. Pensill hans, ljósið, tæknin og samspilið þar á milli. Það er skrýtið að upplifa sum verka hans frá því um í kringum 1950 og sjá þar pælingar ýmissa nútímalistamanna. Verk t.d. Egils Sæbjörnssonar eiga að margt sammerkt með hugmyndaheimi Munari, sjálf minnist ég sýningar hans í Gallerý I8 fyrir nokkrum árum. Á heimasíðu sem tileinkuð er list Munari er Ólafur Elíasson talinn sá nútímalistamaður sem stendur honum næst í pælingum um eðli lita og ljóss. Rannsóknir Munari á pólariseruðiu ljósi minna frekar á tilraunir í eðlisfræðitíma en myndlist. En slíkt verk sýndi hann einmitt á Feneyjartvíæringnum 1966. Glerhjúpur Hörpu minnir á ljósatilraunir Munaris á Feneyjartvíræringnum 1966. Leikur ljóss og lita byggist á sömu lögmálum.  

Munari voru börn og list fyrir börn hugleikinn. Hann hannaði m.a. bókverk sem höfðuðu sterklega til barna. En líka ýmsa nytjamuni. Þess má geta að hann fékk verðlaun LEGO 1986 fyrir framlag sitt til að styrkja hugmyndina um skapandi þætti bernskunnar. Veturinn 1975-76 sótti ég unglinganámskeið í myndlist í MHÍ, þar kenndi á þeim tíma Jón Reykdal. Meðal verka sem hann kviksjábauð okkur að gera var hvert okkar fékk ramma úr slidesmyndavél. Við áttum síðan að safna úr umhverfinu efni/hlutum sem við vildum stækka upp á vegg og mála. Í dag sjáum við slík verk sem byggja á skammtafræði. Ef farið er á Vísindavef HÍ er t.d. reiknað með að ummál strandlengju Íslands sé um 1500 kílómetrar. En samtímis er gerð grein fyrir að það sé aldeilis ónákvæmt og byggi á því að mæla á tiltekinn hátt. Ef t.d. farið væri með málbandið inn í hverja vík um hvern stein og klett má reikna með að talan væri töluvert mikið hærri. Svona eins og þegar jólasería er tekin saman sikk sakk áður en henni er pakkað. Ummál hennar virkar töluvert minna þannig en þegar búið er að taka hana í sundur. Á sömu hugmyndafræði voru verkefni Jóns með okkur krökkunum byggð. Að við skynjuðum stórleika og hins smáa. Sandverk barna á öðru ári í leikskólanum Aðalþingi hér að neðan byggir á sömu hugsun, að hið smáa geti verið ógnarstórt.

Aaling_luing_052.JPG

Í leikskólanum Aðalþingi er greinileg hugmyndafræðileg tenging við list og hugmyndir Munari. Í ljósaveri leikskólans er m.a. leikið með möguleika ljóssins og litanna á margvíslegan hátt. Að skapa með ljósi, að breyta rými með ljósi er hluti af því sem þar er gert. Stundum í umhverfi sem hvetur til rannsókna á tengslum ljós og hluta. Hér að neðan gefur að líta dæmi annarsvegar um skuggaleikhús og svo leik barna með eigin skuggamynd.

skuggabra.JPG

  

Börn rannsaka ljós á mismunandi veru, stundum verður til sjálfsprottinn leikur í tengslum við teiknarann snjalla, sólargeislann. Ef börn umgangast ljós og skugga af opnum hug, eru þau líklegri til að taka eftir tækifærum náttúrunnar í daglegum önnum. Börnin á myndinni eru að athuga hvernig þau geta túlkað tilfinningar með skugga. 

Að lokum Munari bar mikla virðingu fyrir börnum sem endurspeglaðist í list hans. Hann trúði því að hver manneskja bæri í sér hæfileika til að útbúa rými og hluti sem kölluðust á við fagurfræðina, ef hún hefði aðgang að tækni og leiðbeiningu. Dæmin hér að ofan eru vonandi vísbending um að það sé réttmæt ályktun. (KD 13. maí 2011)

Greinin hér að ofan birtist fyrst á gamla blogginu mínu www.roggur.blog.is og heimasíðu þess leikskóla sem ég þekki best þessa daga, leikskólann Aðalþing í Kópavogi.


Hversvegna þessi eilífa áhersla á leikinn?

kd að leika sér

Að prófa sig áfram og gera tilraunir í gegn um leik er á undanhaldi í mörgum bandarískum leikskólum. Ástæðan er þrýstingur í átt til læsis, að börn eigi að vera læs þegar þau fara úr leikskólanum. Þrýstingurinn leiðir til þess að fjöldi kennara eyða meiri og meiri tíma í að kenna börnum lestur og  og sinna því sem gæti útlagst lestrartengt starf. Börn taka þessu misvel og sum upplifa aðallega þrýsting og mistök, þau öðlast með öðrum orðum ekki trú á eigin getu heldur þvert á móti, fyllast vanmetakennd. Bent er á að þetta komi sér einstaklega illa fyrir börn í áhættuhópum og það sé ekkert sem segi að börn sem verða læs 5 ára verði betri í lestri í framtíðinni en þau sem verða læs 6 eða 7 ára.  Samtökin Alliances for childhood benda á nokkru atriði sem þau telja að leikskólafólk og aðrir verði að hugleiða.

·         Endurskoða þá sýn að börn verði að verða læs í leikskóla – Að sjálfsögðu telja þau mikilvægt að vinna með málið, hið talaða orð, að börn kynnist heima bóka og lesturs en lestrarkennsla eins og hefur verið að færast í vöxt henni verði sleppt. Börn þurfa möguleika til að leika skapandi, þau þurfa ríkulegt umhverfi sem hvetur þau til að rannsaka, sem ýtir við þeim og er þáttur í þroska þeirra og lestrarskilningi. (Verður hluti af tilvísunarramma þeirra).

·         Til að geta útbúið leikumhverfi sem er ríkulegt og hvetur til þroska barna þarf góða kennaramenntun, kennarar verða búa yfir skilningi á þroska barna, þeir verða að kunna að fylgja barninu eftir og búa yfir mikilli hagnýtri þekkingu á leiknum, eðli hans og möguleikum. (Og svo vitnað sé til Öksnes hinnar norsku þá verðum við líka að geta leyft leiknum að vera til leiksins vegna ekki bara vegna þess að við sjáum í honum hin og þessi markmið). Það þarf að mati Bandaríkjamanna að styrkja leikinn í leikskólakennaramenntuninni.

·         Stefna um hvernig leikskólar eigi að vera. Samtökin er á því að það sé ekki til ein sönn mynd af hvernig leikskóli henti öllum (hafna væntalega með því DAP). Námskrá leikskóla á að enduróma leik og meiri leik, en minna af verkefnum og skipulögðum stundum. (Listinn er að útbúa og leiða leikinn á þær brautir að í gegn um hann sé tekið á öllu sem fólk annars  sér fyrir sér í þessum svonefndu markvissu skipulögðu stundum. Í raun er meiri krafa á fagmennsku leikskólakennara í leikmiðuðum leikskólum en nokkur staðar annarstaðar). SKIMANIR og próf á bara að gera þegar grunur er um að allt sé ekki eins og best verður á kosið. Gera á ráð fyrir að mikil tími gefist fyrir leik úti og inni, fyrir leik með kubba, þykjustuleik, hreyfileiki og svo framvegis.

Nú er hægt að velta fyrir sér á hvaða leið við erum hérlendis. Erum  við á leið prófanna og því sem stundum er nefnt bein kennsla? Með „markvissum“ stundum um hitt og þetta eða erum við á leið leiksins? Samkvæmt leikskólahluta Aðalnámskrár leikskóla er hin opinbera stefna leikmiðuð. En er önnur stefnumörkun hins opinbera í sömu átt?

Fyrir þá sem vilja lesa um rannsóknir sem styðja ofangreint þá er bent á slóðina. The Alliance for Childhood

og á heimasíðu: http://www.allianceforchildhood.org/home

Þátttökuaðlögun

Þátttökuaðlögunin byggist á þeirri hugmynd að börnin og foreldrarnir séu að læra að vera í leikskólanum, nái að kynnast honum saman, en ekki á að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Jafnframt að tími gefist fyrir leikskólakennara að kynnast barninu sem hluta af fjölskyldu og sem hluta af stærri barnahóp.

Framkvæmdin er á þá vegu að foreldrar eru með börnum sínum allan daginn í leikskólanum í þrjá daga og taka fullan þátt í starfseminni á meðan. Markmiðið er að skapa trúnað og traust á milli foreldra og starfsfólks sem sé grundvöllur fyrir áframhaldandi foreldrasamstarfi. Ef vel tekst til við upphaf leikskólagöngu og foreldrar og leikskólakennarar ná að kynnast er talið líklegt að þegar á reynir sé fólk saman í lið með hagsmuni barna að leiðarljósi.

Hugmyndafræðilega byggist þáttökuaðlögun frekar á heimspekilegri og félagsfræðilegri nálgun við leikskólastarf en sálfræðilegri. Má að hluta segja að hún sé afkvæmi þeirra nýju hugmynda sem hafa verið að ryðja sér til rúms innan leikskólafræðanna.

Hún byggist á því á að undirstöðuatriði um hvernig aðlögun gengur fyrir sig stjórnist af viðhorfum og ákveðinni leikskólasýn. Sem dæmi byggist þátttökuaðlögun m.a. á þeirri trú að öruggir foreldrar smiti eigin forvitni og öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að foreldrar séu virkir þátttakendur í starfi leikskólans frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagsskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki. 

Foreldrar upplifi ekki að þurfa að geta sér til um væntingar og verkefni sem þeir eigi að takast á við. Á það er bent að og jafnframt talinn kostur við nýja formið að foreldrar eru líklegri til að tengjast innbyrðis. Vegna þess að þeir eru gjarnan margir saman í aðlöguninni nái þeir að kynnast hver öðrum og flestum börnunum, sem getur leitt til þess að á milli þeirra skapist kunningsskapur.


Hvað er kyn-legt við dúkku eða bíl - þurfa drottningar að kúka?

Í sænskri rannsókn kom í ljós að flestir leikskólar eru búnir svipuðum efnivið og leikföngum. Þar kom fram að hægt væri að flokka efniviðinn á nokkra vegu.

Efniviður til skapandi starfs s.s. málning, litir, perlur, leir og ýmislegt sem tilheyrir dúkkuleik, bílaleik og byggingarleikjum (kubbar af ýmsum tegundum), leikföng sem ýta undir og styðja við grófhreyfingar. Mest var til af leikföngum sem studdu félaglegan og vitrænan þroska, næst kom hreyfiþroski.

Þegar skoðað hvað hvernig skiptingin á milli flokka var, kom í ljós að mest var til af efnivið sem tengdist skapandi starfi og smíðum en minnst þar sem, tónlist, málið og bókmenntir eru umfjöllunarefni. Það sem hinsvegar kom líka í ljós að þrátt fyrir að mikið væri að efnivið til skapandi starfa - var  aðgengi barnanna að því lítið. Þetta er efniviður sem er lokaður inni, notaður spari - eða að börnin þurfa alltaf að biðja um hann. Það er enginn ástæða að ætla að íslenski leikskólar séu mikið öðruvísi en þeir sænsku - kannski minna um smíðar en annar efniviður er nokkuð svipaður.

Leikföngin sem finna má í flestum leikskólum endurspegla sterkt hinar Fröbelsku hefðir og rætur leikskólans en minna daglegt líf flestra barna. Má segja að leikskólinn á vissan átt neiti að viðurkenna þróun samfélagsins, vilji halda í þá rómantísku sýn sem Fröbelleikskólinn stendur fyrir. Fyrir mörgum árum skrifaði ég grein um þrá okkar leikskólakennara til að skilgreina fyrir barnið - til að afneita því umhverfi sem það býr í. Afneita, barbie, he-man; transformers og öllum hinum ofurhetju- og álfameyjuleikjunum. Afneita áhrifum barnaefnisins -  auglýsinganna, poppmenningarinnar og tölvanna sem flest börn búa við heima.

Þetta er gert með því m.a. að ræða um að leikskólinn eigi að vera öðruvísi en heimilið, að vera hvíld frá yfirfullum barnaherbergjum og kröfum um nýjasta tæknidótið. Má meira að segja lesa út ákveðna fyrirlitningu gagnvart þeirri "áráttu" foreldra að fylla barnaherbergin af "drasli".

Annað viðhorf til barn og dægurmenningar má lesa úr þessari tilvísun til Loris Malaguzzi þar sem hann fjallaði um tölvur og börn árið 1986 (á íslensku 1988).

Það dugir ekki að snúa baki við raunveruleikanum í leitandi uppeldisstarfi, sem áttar sig á breytingum í heiminum. Þau fyrirbrigði sem barnið kemst í kynni við í raunveruleikanum þarf það einnig að fræðast um í skólanum til þess að geta séð þau sem þátt í menningunni.  

Með því að henda út og banna öll leikföng sem annaðhvort falla ekki að hinni fröbelísku hefð eða sem við teljum stuðli að "slæmum" staðalímyndum barna, erum við í leiðinni að gjaldfella líf þeirra og reynslu. Við erum að ákveða hvað er merkingarbært eða á að vera merkingarbært fyrir börn. Og við fáum aldrei tækifæri til að ræða um þær merkingar sem börnin leggja sjálf í leikheim sinn - fáum ekki tækifæri til að ræða um eða efast um skilning þeirra. Til að ögra honum. 

Af þessu öllu missum við af því að við erum svo upptekin af okkar mynd af barninu. Takamarkaða barninu - barninu sem þarf að gæta sín á og temja, barninu sem virðist samkvæmt námskrá sumra leikskóla vera óvinurinn- barnið sem rænir völdum * ef við pössum ekki upp á völdin.

Þegar ég var 7 ára velti ég því fyrir mér hvort að drottningar þyrftu að kúka - spurningarnar hafa breyst þær gætu verið; þarf He-man að hugsa um börnin sín eða Superman að kaupa í matinn - þarf Barbie á klóið, hver les fyrir ofurstelpurnar á kvöldin? Hvað gerist inn í tölvuleiknum? Hugsa tölvur? Af hverju leika strákar ofurhetjur á meðan stelpur leika prinsessur og álfmeyjar? Eða leika kannski stelpur líka ofurhetjur og strákar álfmeyjar? Hvernig er hægt að stuðla að viðhorfsbreytingu hjá börnum ef við erum ekki einu sinni til í að setja þeirra mál og leiki á dagskrá leikskólans?

Hvenær eru leikföng kynbundin - Hvað með kynjaða leiki?

Lítið breytt af www.roggur.blog.is í júlí 2007


Hávaði

Ég þoli ekki hávað - ég verð þreytt í hávaða, ég missi einbeitingu og ég verð pirruð. En á meðan ég starfaði sem leikskólakennari var hávaði gjarnan hlutskipti mitt. Þess vegna hefur það líka verið áhugamál mitt lengi að skoða hvað hægt er að gera innan leikskólanna til að draga úr þeim hávaða sem þar er. 

Hljóð endurkastast frá sléttum flötum svipað og ljós endurkastast frá spegli. Það fer eftir því horni sem hljóðið lendir á fletinum hvernig endurkastið verður. Við vitum að það er ýmislegt sem stöðvar endurkastið og í mörgum leikskólum hefur verið unnið markvisst að því að bæta hljóðumhverfið. Við höfum sett dúka á matarborðin, við höfum sett fílttappa undir stóla, við höfum hengt myndir og teppi upp þannig að virki sem hljóðmanir. Við höfum sett stórar mottur á gólf. En svo var kannski málað yfir hljóðeinangrandi plöturnar í loftinu. Auvitað eiga sérfræðingar í hljóði að taka þátt í hönnun leikskóla.

Annars held ég því fram, án allra rannsókna að hluti af vandamálum leikskóla, sé of mörg börn. það sé ástæða tíðra mannaskipta, ástæða hluta einbeitingaskorts og allsslags vandamála í bæði barna og starfsmannahópnum.  Ekki misskilja ég á ekki við of mörg börn á starfsmann, ég á ekki við of stóra hópa, ég á við að við erum að setja allt of marga einstaklinga inn í sama rými. Við erum með allt of fáa fermetra fyrir hvert barn í leikskólunum okkar inn á deildum.

Hugsið ykkur að vera í stöðugu kokteilpartý alla daga og þá getið þið ímyndað ykkur hvernig ástandið er oft í leikskólum. Í morgun las ég grein í blaðinu (þessu nafnlausa), þar sem rætt var um börnin sem framtíðina. Í mínum huga er þau ekki fyrst og fremst framtíðin - þau eru nútíðin, þess vegna þurfum við að gera eitthvað strax .

Birtist í september 2007 á www.roggur.blog.is


Umhverfi sem talar sem segir sögu

Mismunandi leikskólastefnur eða nálganir leggja áherslu á mismunandi umhverfi. Það er hægt að skoða áherslur og sýn til barna með því að skoða umhverfi og skipulag leikskóla.

Rýmið sem við lifum í mótar okkur. Yi-Fu Tuan lítur á manngert rými sem "texta sem felur í skilaboð um hegðunarreglur og jafnvel um viðhorfum til heimsins" og sem "afmarkar og stækkar samfélagið" Því er haldið fram að manngerð svæði móti, hjálpi til við að bera kennsl á og afmarki þá möguleika og virkni sem rýmið bíður upp á. Þetta felur í sér - að það felist skilaboð í því hvernig við höfum í kringum okkur, hvernig við hugsum rýmið. Línan á gólfiniu er þá ekki lengur bara lína á gólfinu, það liggur hugsun á bak við hana. Hún sendir skilboð um ákveðna hegðun. Hvar myndir hanga á veggjum, hversu hátt er upp í hankann í hólfi barnsins, allt byggir þetta á skilaboðum. 

Sænskir skólar sem vinna í anda Reggio Emilia

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég tvo leikskóla í Stokkhólmi, báðir vinna þeir í anda leikskólastarfs í Reggio Emilia. Þau skilaboða sem ég upplifði á þessum tveimur stöðum voru þó nokkuð ólík. Meðal þess er hvernig þessir skólar nýta rýmið. Hver sem er gat séð að skólarnir vinna samkvæmt svipuðum hugmyndum, um að börn verði að eiga sér sögu innan skólans, að þeim sé þar bæði sín eigin fortíð og nám ljóst. En að öðru leiti voru skólarnir gjörólíkir.

Lýðræði og traust

Í báðum skólum var lögð áhersla á vinna með möguleika, hópvinnu, lýðræði og ljóst að þar ríkti traust í garð barna. Sú hugmyndafræði sem eitt sinn heyrðist um á Íslandi að verkefni barna á veggjum leikksóla væru eins og hver annar subbuskapur sem þurfi að afsóða reglulega, átti sannarlega ekki við. Þar er ekki gefin út skilaboð um að myndir á vegg séu tímasóun starfsfólks eða ofáreiti fyrir hegðunartrufluð börn eins og til er í fjölda íslenskra leikskóla. Viðhorf sem er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég held að þvert á móti að með slíkum skilaboðum sé verið að senda allt önnur skilaboð til barna.

Ofvirk börn

Annar þessara leikskóla gekk of langt fyrir minn smekk í að setja upp skráningar, það var næstum hver þumlungur þakinn skráningum. Ég viðurkenni að ég fell fyrir fagurfræði Ítalanna sem leggja mikla vinnu og pælingar í hvernig þeir nýta rýmið til að endurspegla sögu og nám barna af sjónarhóli fagurfræðinnar. Ég spurði í þeim leikskóla, "hvernig er fyrir ofvirk börn með einbeitingarörðuleika að vera í þessu fulla rými". "Jú" sögðu þær, "það gengur mjög vel, því við flokkum allt sem við hengjum upp, þannig nær barnið skipulagi í það sem getur virst vera kaos fyrir þig. Við leiðum það að skráningum og ræðum þær, þetta verður meira að segja til þess að börnin leita þangað þegar þeim er órótt, þau ná að tengja sig við sína eigin sögu".

Hvað skilaboð?

Skilaboðin sem börnin í þessum skólum fá er að nám þeirra og verk skipta máli, að saga þeirra innan leikskólans skipti máli. Þó áhersla sé á þroska hvers einstaklings er ekki áhersla á að hver einstaklingur verði og eigi að taka öll verkefni með sér heim. Leikskólarnir leggja þvert á móti metnað í að tryggja spor barnanna, tryggja að saga þeirra í skólanum sé til staðar eftir ár og áratugi. Þetta er gert með því að nota uppeldisfræðilega skráningu.

Saga mín

Nýlega var ég í heimsókn í íslenskum leikskóla, á sama tíma var þar 15 ára unglingur í starfskynningu. Ástæða þess að hann valdi leikskólann var að hann hafði verið leikskólabarn þar. Það fyrsta sem hann gerði var að leita eftir einhverju kunnuglegu úr leikfangaeign skólans, hann leitaði að myndum, hann var að leita að fortíð sinni í þessum skóla. Þetta og fleiri svipuð dæmi urðu til þess að í þessum leikskóla er nú haldið í minningar barna. Þau hafa komið sér upp skáp og möppum til þess. Þau vilja senda þeim börnum sem einn dag koma í leit að sögu sinni skilaboð - um að hún skipti máli.

Hvaða skilaboð má lesa út úr annarskonar hugmyndafræði í leikskólum?

Leikskóli eins og t.d. Waldorf skólarnir (líka stundum nefndir Steiner skólar) leggja áherslu á náttúrulegt umhverfi, þar eiga ekki að vera nútímatæki og ekki bækur. Þar er áhersla á að nota leikföng sem unnin er úr náttúrulegum efnum, bómull, ull, silki, pappír og tré. Málað er með sérstökum litum og trélitir eru mikið notaðir. Vaxlitir eru úr bývaxi en það er líka notað sem leir. Lögð er áhersla á opin efnivið, mikla sköpun og nauðsyn leiksins. Starfsfólk vinnur að sínum verkefnum og börnin læra af. Hver dagur er helgaður eigin rytma og árið fylgir rytma árstíðanna. Matur er lífrænn og mikil áhersla lögð á hollustu. Sennilega er hægt að setja næstum hvaða Waldorf-leikskóla nokkuð beint inn í hugmyndafræði um sjálfbæra þróun. Sú sýn sem birtist á barnið og veröldina er rómantísk, þar sem ýmsum gildum hins hraða samfélags er hafnað. Því lífi sem flest börn í Waldorfskólum lifa utan skólasamfélagsins og á ég þá við leikföng, bækur, tölvur og sjónvarp er hafnað og það á ekki heima innan skólans.

Álitið er að barnið þarfnast umhyggju og þess að vera "vafið þétt í ull". Það er hinn fullorðni sem hefur vit og á að hafa vit til að velja rétt fyrir barnið í frumbernsku.

Í Waldorfskólum eiga engin horn að vera 90 gráður því þannig er náttúruna ekki. Húsnæðið á að endurspegla eins og kostur er sjálfa náttúruna. Ég finn vel að þessar rómatísku áherslur eiga að hluta til vel við mig. Þær kalla fram tilfinningar vellíða. En samt hef ég aldrei getað hugsað mér að verða algjörlega Waldorf. Sennilega er það tæknidellan sem ég er illa haldinn sem kemur í veg fyrir það.

Birtist áður á www.roggur.blog.is er eilítið breytt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband